Prentvæn útgáfa

 

1. 
Flugvélar Flugklúbbs Íslands ehf. eru til afnota fyrir alla félaga hans samkvæmt gjaldskrá félagsins. Einungis félögum í félaginu er heimilt að skrá sig sem flugstjóra á flugvélum flugklúbbsins. Stjórn Flugklúbbs Íslands eða umsjónarmaður flugvéla klúbbsins getur samþykkt flugstjóra annan en félaga en aðeins í undantekningatilfellum og þarf hann áður að ljúka þjálfun með flugmanni frá klúbbnum.

2. 
Skipaður umsjónarmaður með flugvélum klúbbsins sjá um aðgengi félaga að flugvélum klúbbsins í umboði stjórnar félagsins. Hann hefur heimild til að neita félagsmanni í klúbbnum um afnot af flugvélunum ef hann hefur ekki greitt félags- og/eða afnotagjöld sín.

3. 
Aðeins skal lent á skráðum flugvöllum. Lendi flugmaður vélarinnar utan skráðs vallar gerir hann það alfarið á eigin ábyrgð.

4. 
Verði slys eða óhapp skal tilkynna það til umsjónarmanns svo fljótt sem auðið er, sem og til viðeigandi yfirvalda. Tjón sem hlýst af meðferð félaga á flugvélum klúbbsins greiðir viðkomandi félagi að því marki sem tryggingar bæta ekki. Verði tjónið af ástæðum sem ekki verða raktar til sakar flugmanns greiðir klúbburinn sjálfsáhættuupphæðina. Skal stuðst við niðurstöðu rannsóknar RNF.

5.
Ef dvalið er yfir nótt utan heimaflugvallar skal ganga tryggilega frá flugvélinni, læsa stýrisflötum með stýrislás eða beltum, og setja fyrir hjól flugvélarinnar og binda hana tryggilega niður sé þess nokkur kostur, æskilegt er að vélar séu hýstar í flugskýli á kostnað félagsmanns hafi hann aðgang að skýli.

6.
Í lok hvers flugs skal flugtími færður í dagbók flugvélar. Gjald fyrir flugtíma er ýmist innheimt eftir hobbs eða block eftir því hvaða flugvél er flogið.

7.
Flugmaður flugvélar félagsins skal gæta fyllstu varúðar í meðferð flugvélar, virða takmörk hennar og hafa hugfast að hann er að fljúga vél Flugklúbbs Íslands og ber að ganga vel um vélina. Félagar skulu skilja við vélina hreina að innan sem utan. Ef hún óhreinkast í meðförum hans skal hann undantekningalaust þrífa flugvélina. Bannað er þó að þrífa rúður með þurrum klútum þar sem það getur rispað rúðurnar. Nota skal vatn.

8.
Verði vart bilunar, skal skrifa athugasemd í flugdagbók vélarinnar og gera umsjónarmanni viðvart svo viðgerð verði við komið án tafar.

9. 
Fyrir hvert flug skal flugmaður ástandsskoða flugvélina. Kanna skal hvort athugasemdir hafi verið færðar í dagbók flugvélar. Flugmaður má búast við að vera krafinn um greiðslu vegna skemmda sem næsti flugmaður uppgötvar og færir í dagbók vélarinnar. Gleymið því ekki ástandsskoðun fyrir og eftir flug og athugið vel flugdagbók flugvélarinnar.

10. 
Hver félagi hefur rétt á að bóka þrjár bókanir fram í tímann. Sé flugvél bókuð í tvo daga samfellt teljast það vera tvær bókanir. Bókanir líðandi dags teljast ekki með í þessu sambandi. Sé félagi komin yfir 90 tíma s.l. tólf mánuði má hann aðeins bóka
 vélina samdægurs.

11. 
Ef flogið er út á land og dvalið yfir nótt reiknast ekki biðtímagjald ef flognir eru a.m.k 3 flugtímar á sólarhring en annars er biðtímagjald samsvarandi einum flugtíma á dag. Hámarkstími bókunar eru 2 sólarhringar í senn. Umsjónarmaður getur heimilað frávik í samráði við stjórn félagsins. Ef veður hamlar heimflugi getur umsjónarmaður fellt biðtímagjald niður. Undir öllum slíkum kringumstæðum skal hafa samband við umsjónarmann og skal flugmaður vélarinnar sjá um að tilkynna þeim sem höfðu bókað sig á vélina á eftir honum um breytta flugáætlun, eða töf vegna veðurs. Skal flugmaður gæta þess að skrifa hjá sér nöfn þeirra og símanúmer áður en hann leggur af stað.

12. 
Bókunarkerfi er á vefsíðu Flugklúbbs Íslands yfir Internetið. Ef sá félagi sem á bókaðan tíma er ekki mættur 15 mínútum eftir tilgreindan bókunartíma telst flugvélin laus til afnota fyrir aðra félaga. Skráða komutíma er mikilvægt að virða. Fari komutími fram yfir bókaðan tíma skal framlengja bókun tafarlaust og láta þann sem næst á bókað vita af áætluðum komutíma.

13. 
Brjóti félagi ítrekað reglur Flugklúbbs Íslands getur stjórn félagsins svipt hann tímabundið afnotarétti að flugvélum félagsins. Séu brot hins vegar ítrekuð og/eða alvarleg má svipta viðkomandi afnotarétti varanlega.